Saga Þarfaþings

Þarfaþing hf. var stofnað árið 1993 upp úr viðhaldsdeild Hagkaupa hf. og voru stofnendur þess; Hagkaup hf., Bónus sf., Miklatorg sf., Vöruveltan hf., Þyrping hf., Kristinn Orri Erlendsson, Ólafur G. Guðjónsson, Sverrir Gunnarsson og Guðbrandur Benediktsson. Núverandi eigendur eru Eggert Elfar Jónsson, framkvæmdastjóri og Einar Hafsteinsson verkstjóri. Þarfaþing var fyrst til húsa í Síðumúla 34 í Reykjavík, flutti þaðan árið 1999 í Kjalarvog 5 í Reykjavík og árið 2008 var starfsemin flutt í eigið húsnæði að Drangahrauni 14 í Hafnarfirði og þar er fyrirtækið staðsett í dag.

Eins og áður segir þá hóf félagið starfs sitt 1993 aðallega sem viðhaldsþjónusta fyrir Hagkaup og tengd félög. Með nýju fólki breytast áherslur og árið 1998 fór félagið að taka þátt í almennum útboðsmarkaði. Þetta var stórt skref að stíga á sínum tíma. Í framhaldi af því fóru verkefnin stækkandi ár frá ári og 2001 var stigið enn eitt skref og reisti félagið þá 5 eininga raðhús í Grafarholti og svo var ráðist í byggingu fjölbýlishúss í Urriðaholti árið 2015 og því næst reist hvert fjölbýlishúsið á fætur öðru ásamt þeim útboðsverkefnum sem félagið hneppir hverju sinni sem eru orðin mikill fjöldi í gegnum árin.

Tilgangur félagsins og starfsemi

Tilgangurinn með stofnun félagsins var að þjónusta Hagkaup og tengd fyrirtæki með allt sem sneri að viðhaldi verslana og fasteigna. Einnig sá Þarfaþing um tíma um samsetningu reiðhjóla fyrir Hagkaup. Starfsemi félagsins hefur tekið talsverðum breytingum í tímans rás frá því að vera eingögnu í að þjónusta fyrirtæki í smærri verkefnum í það að taka að sér alverktöku í stórum verkefnum á útboðsmarkaði fyrir fyrirtæki og stofnanir. Jafnframt er félagið með eigin verkefni að byggja og selja íbúðarhúsnæði.

Starfsfólk, öflugir undirverktakar og birgjar

Meðalfjöldi starfsmanna undanfarin ár hefur verið í kringum 15 fastráðnir starfsmenn og hefur svo verið alllengi. Þarfaþing hefur byggt upp öflugt samband við undirverktaka sína sem í gegnum tíðina hafa að stórum hluta verið þeir sömu. Þetta er fólk sem við treystum og höfum myndað öflugt samband við.

Aðalbirgjar Þarfaþings eru flestir innlendir en Þarfaþing flytur að hluta til sjálft inn innréttingar og annað efni beint frá framleiðendum

Verkefnastaða er góð um þessar mundir sem og fjárhagsstaða félagsins og við okkur blasir björt framtíð. Ársvelta félagsins hefur farið vaxandi frá ári til árs og árið 2019 nam veltan 2,1 milljarði króna. En auðvitað hafði hrunið 2008 og Covid 2020 sín áhrif. Félagið er sterkt og stóð þessi áföll af sér. Félagið hefur átt auðvelt með að aðlaga sig hratt að þessum breytingum þegar þær eiga sér stað, minnkað hratt og stækkað hratt þegar á þarf að halda.

Framúrskarandi í 13 ár Þarfaþing hefur hlotið viðurkenningu frá Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki s.l. 13 ár eða frá árinu 2012 til 2023. Þá viðurkenningu hljóta aðeins fyrirtæki sem standast styrkleikamat Creditinfo og uppfylla ströng skilyrði við greiningu þess.